Öflugur rekstur skíðasvæðisins tryggður til þriggja ára
31.08.2009
Frétt tekin af siglo.is
Egill Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Valló, og Þórir Kristinn Þórisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, skrifuðu
síðastliðinn föstudaginn undir samning þess efnis að Valló haldi áfram rekstri skíðasvæðisins og hafi umsjón með
knattspyrnuvöllum Fjallabyggðar á Siglufirði næstu þrjú árin.
Egill var að vonum mjög ánægður með þennan áfanga enda hefur hann lagt bæði líf og sál í verkefnið á liðnu
ári. Nú getur hann hafist handa við að skipuleggja framtíðina með langtíma samningum við samstarfsaðila. Aðspurður hvort einhverra
breytinga sé að vænta segir Egill helstu breytinguna þá að í vetur verði lokað á þriðjudögum í stað þess að
loka á mánudögum eins og venjan var síðastliðinn vetur. Er þetta gert í þeim tilgangi að lengja helgarnar fyrir þá sem koma langt
að til að sækja svæðið.
Síðastliðinn vetur tókst Agli að sexfalda heimsóknir á skíðasvæðið frá fyrri árum og á hann því
augljóslega skilið að takast á við verkið á komandi árum. Þetta tókst honum með óbilandi dugnaði og öflugri
markaðssetningu. Sigló.is fagnar því þessum tíðindum og telur samninginn vera afar mikilvægt skref í að auka ferðamannastreymi til
Siglufjarðar enn frekar.
Valló og Fjallabyggð til hamingju með samninginn.